Huglendur

5. september 2024

Bjarni Sigurbjörnsson

Röð af pálmatrjám við bláan himin

5. september 2024 -5. janúar 2025


Verið velkomin á opnun einkasýningarinnar Huglendur – Bjarni Sigurbjörnsson, á Ljósanótt, fimmtudaginn 5. september kl. 18:00.


 
Huglendur - Bjarni Sigurbjörnsson
 
Vísast er að bera í bakkafullan lækinn að setja hér á ítarlega umfjöllun um málaralist Bjarna Sigurbjörnssonar listmálara, þar sem hann talar eigin máli af óvenjulegri innsýn og skynsemi. Í tilefni sýningar hans hér í Listasafni Reykjanessbæjar, með stærstu sýningum sem haldnar hafa verið á verkum hans til þessa, er þó ómaksins vert að velta upp stöðu hans – og sérstöðu – í íslensku samhengi. Þegar skrif og viðtöl við Bjarna í tímans rás eru gaumgæfð, kemur upp úr kafinu að honum er í raun ekkert kappsmál að staðsetja sig í því samhengi. Til dæmis er það býsna stafffírugur ungur myndlistarmaður sem fyrir þrjátíu árum segir blaðamanni af Morgunblaðinu að hann sé ekkert upp á aðra kominn.
Hins vegar hefst Bjarni handa í eins konar tómarúmi. Fyrir honum er myndflöturinn auðn sem þarf að kveikja til lífs og merkingar. Með pentskúfi, en án fyrirhyggju, markar hann fyrir striki eða stroku; sérhvert þessara ummerkja er vitnsburður um líkamlegt inngrip hans í veruleika myndflatarins, ekki tilraun til að draga upp „mynd“ af einhverju sem við teljum okkur þekkja í raunheimi. Í þeim gjörningi sem sérhvert verk er, renna líkamlegur veruleiki listamannsins – hreyfikraftur hans – og tjáning þessa sama krafts, saman við andlega kjölfestu hans og mynda heild sem er fullkomlega merkingarbær í sjálfri sér, þarfnast hvorki myndlíkinga né táknrænna útlistana til að lifa af það sem það sem sænski hönnuðurinn Sven Lundh kallaði „áreiti augans“.
 
Aðalsteinn Ingólfsson, sýningarstjóri
 
Bjarni Sigurbjörnsson (1966) útskrifaðist með MFA-gráðu í myndlist frá San Francisco Art Institute, Bandaríkjunum, árið 1996 og BFA-gráðu frá sama skóla árið 1992. Hann hefur haldið fjölda einkasýninga og verið valinn á samsýningar víða. Bjarni hefur kennt við alla helstu listaskóla landsins og staðið fyrir eigin námskeiðum, ásamt því að sitja í ýmsum myndlistarnefndum og stjórnum.
 
Sýning er styrkt af Safnasjóði og Stapaprenti.
 
Huglendur stendur til 5. janúar 2025.

Eftir Helena Sólveigar Aðalsteinsbur 12. nóvember 2025
Áki Granz: Samtal um list og minningar
Eftir Helena Sólveigar Aðalsteinsbur 12. nóvember 2025
Opin listsmiðja barna með Freyju Eilíf
4. nóvember 2025
Opin listsmiðja barna með Freyju Eilíf
Fleiri færslur