Hulduefni, leiðsögn sýningarstjóra
Heimsmynd, leiðsögn sýningarstjóra
12. október 2025 kl. 15:00
Hanna Styrmisdóttir sýningarstjóri Hulduefnis, fer um einkasýningu Vilhjálms Bergssonar. Tildrög þessarar sýningar er gjöf Vilhjálms til Listasafns Reykjanesbæjar, sem telur hátt í tvö hundruð verk, frá miðjum 6. áratugi 20. aldar fram á þriðja áratug þessarar aldar. Þar eru olíumálverk í meirihluta, en einnig eru tölvuverk, vatnslitaverk og teikningar hluti af gjöfinni. Eitt verk á sýningunni, Raðferli: 12 nr., kolteikning frá 2021, er í eigu listamannsins og sýnt með leyfi hans.
Sýningin gefur mynd af þróun í verkum Vilhjálms frá 1959 til 2021, og dregur fram fágæta tæknilega færni hans og kunnáttu. Samtöl við Vilhjálm í gerð sýningarinnar, sem og áðurnefnd skrif, hafa gefið sjaldfengna innsýn í stígandi verka hans og það andríki og djúpsæi sem búa að baki. Í skrifunum tekst hann á við rannsókn sína í myndlist samhliða sköpuninni, og fangar með orðum þanka sína um myndlist almennt, áþreifanlega og óáþreifanlega þætti hennar, samtíma og sögu, hefð og byltingu; og hugarástand, þess sem skapar og þess sem skoðar.
Við ferðumst frá fyrstu abstrakt geómetrísku verkunum, í gegnum samlífrænar víddir út í takmarkalaust orkuljósrými á þeim sextíu árum sem sýningin spannar. Vilhjálmur lýsti snemma á ferlinum viðfangsefni sínu í myndlist sem víðtækri hlutdeild; undir hana féll allt milli himins og jarðar, frá minnstu ögn til stjörnuþoka, auk hinna ósæju víðlenda mannshugans. Hann varð ungur fyrir áhrifum af myrkri - gegnsæju gljámyrkri[1] - og ljósi – birtunni á bakvið Þorbjörn[2] - og með einum eða öðrum hætti varð hvort tveggja honum yrkis- og rannsóknarefni í áratugi.
Vilhjálmur Bergsson er fæddur í Grindavík 1937. Hann sótti myndlistarnám í Reykjavík á sjötta áratugnum og hélt að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík (1958) til Kaupmannahafnar þar sem hann hélt áfram myndlistarnámi (1958-1960). Þaðan lá leiðin til Parísar þar sem hann stundaði nám við Académie de la Grande Chaumière (1960-1962).
Vilhjálmur varð félagi í SÚM 1969 og formaður þess frá 1971-1972. Hann dvaldi í Kaupmannahöfn 1963-1966 og 1972-1977, Madrid 1967-1968 og í París 1977-1978. Frá 1983-2000 bjó Vilhjálmur og starfaði í Düsseldorf í Þýskalandi. Frá 2000-2024 var Vilhjálmur búsettur og starfaði í Grindavík og hefur nú aðsetur í Vík í Mýrdal.
Vilhjálmur hefur haldið tugi einkasýninga á verkum sínum, m.a. í Gallerí SÚM, Norræna húsinu, Listasafni ASÍ, Listasafni Reykjavíkur, í Orangerie Benrath höll í Düsseldorf og í Galerie AP, Kaupmannahöfn. Þá hefur hann tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi, í Bandaríkjunum og Evrópu. Verk hans eru m.a. í eigu Listasafns Reykjanesbæjar, Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Háskóla Íslands, Listasafns Gautaborgar, Hässelby kastala í Stokkhólmi, Gentofte Kunstvenner, Charlottenlund og Kunstversammlung í Düsseldorf.
Sýningin stendur til og með 4.janúar 2026.
Hanna Styrmisdóttir er sýningarstjóri Hulduefnis og tímabundið starfandi sérfræðingur í Listasafni Reykjanesbæjar.
Áður hefur Hanna m.a. verið prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands, stýrt Listahátíð í Reykjavíkog verið sýningarstjóri Íslenska skálans
á Feneyjatvíæringnum í myndlist.
Hulduefni, einkasýning Vilhjálms Bergssonar er styrkt af Myndlistarsjóði.