Hulduefni – Vilhjálmur Bergsson

3. september 2025

04.09.25 – 04.01.26

“Myndverk mitt vil ég nefna

samlífrænar víddir.

Þær eru allt upphaf, blómi, fölvi.

Það sem þenst út og dregst saman,

hverfur inn í skuggann eða tindrar í ljósi.

Leit að víðtækri samantekt

þess ytri og innri heims,

sem ég er og leitast við að auðga.

 

Líka má einfaldlega nefna það

samsteypu þess,

sem ég hef séð og lifað.

Í sérhverjum starfsáfanga reyni ég,

að sækja dýpra inn á

svið hugans,

og jafnframt slöngva mér lengra út í
ytri alveröld.”

 

Vilhjálmur Bergsson, 1970
 

Ungur skrifaði Vilhjálmur Bergsson þessa hugrenningu um listsköpun sína. Hann hóf reyndar að skrifa um eigin myndlist og þanka tengda henni sautján ára að aldri. Skrifin, sem hann nefnir í heild Hverju orð ná, eru óbirt, en í þau er vísað í þessum sýningartexta, þar sem myndlistarsköpun og skrif Vilhjálms eru nátengd. Á milli þessara þátta í skapandi hugsun hans er víxlverkun; spenna, sem dregur fram dýpt og umfang rannsóknar hans á eigin innra lífi, athugun á umheiminum, og möguleikum myndlistarinnar. 

Tildrög þessarar sýningar er gjöf Vilhjálms til Listasafns Reykjanesbæjar, sem telur hátt í tvö hundruð verk, frá miðjum 6. áratugi 20. aldar fram á þriðja áratug þessarar aldar. Þar eru olíumálverk í meirihluta, en einnig eru tölvuverk, vatnslitaverk og teikningar hluti af gjöfinni. Eitt verk á sýningunni, Raðferli: 12 nr., kolteikning frá 2021, er í eigu listamannsins og sýnt með leyfi hans. 

Sýningin gefur mynd af þróun í verkum Vilhjálms frá 1959 til 2021, og dregur fram fágæta tæknilega færni hans og kunnáttu. Samtöl við Vilhjálm í gerð sýningarinnar, sem og áðurnefnd skrif, hafa gefið sjaldfengna innsýn í stígandi verka hans og það andríki og djúpsæi sem búa að baki. Í skrifunum tekst hann á við rannsókn sína í myndlist samhliða sköpuninni, og fangar með orðum þanka sína um myndlist almennt, áþreifanlega og óáþreifanlega þætti hennar, samtíma og sögu, hefð og byltingu; og hugarástand, þess sem skapar og þess sem skoðar.

Við ferðumst frá fyrstu abstrakt geómetrísku verkunum, í gegnum samlífrænar víddir út í takmarkalaust orkuljósrými á þeim sextíu árum sem sýningin spannar. Vilhjálmur lýsti snemma á ferlinum viðfangsefni sínu í myndlist sem víðtækri hlutdeild; undir hana féll allt milli himins og jarðar, frá minnstu ögn til stjörnuþoka, auk hinna ósæju víðlenda mannshugans. Hann varð ungur fyrir áhrifum af myrkri  - gegnsæju gljámyrkri[1] - og ljósi – birtunni á bakvið Þorbjörn[2] -  og með einum eða öðrum hætti varð hvort tveggja honum yrkis- og rannsóknarefni í áratugi.


[1] Vilhjálmur Bergsson. Hugleiðingar á haustdögum, 1997. Hverju orð ná 1954-2007. Óbirt.

[2] Birtan á bakvið Þorbjörn. Viðtal Gísla Sigurðssonar við Vilhjálm Bergsson. Lesbók Morgunblaðsins (sept 1987). https://timarit.is/page/3305962#page/n7/mode/2up (sótt: 3.7.2025)

Í lok 6. áratugar 20. aldar, í myndlistarnámi í Kaupmannahöfn, fékkst Vilhjálmur við abstrakt geómetríu sem þá var ríkjandi meðal ungra listamanna. Verkin þróuðust fljótt í átt til hreinnar abstraktlistar. Þá málaði hann stundum dökkar myndir, sem hann taldi vera vegna þess að honum þætti hann staddur í myrkum og óljósum heimi. Það rann upp fyrir honum að hann hefði ekki meira að sækja til þeirra stefna sem voru ráðandi í myndlist í Evrópu. Í skrifum sínum á þessum tíma lýsir hann sókninni inn á við, á lendur hugans, samtímis því að hann leitast við að dýpka eigin skilning út á við; innri átök sem leiddu til verka sem hann kallaði Samlífrænar víddir og eru einkennandi fyrir verk hans frá 1965 til um 1990. Um það bil urðu aftur kaflaskipti í listsköpun hans og birtan ruddi sér rúms. Hann nefndi þau verk, sem og þau sem hafa komið á eftir, Takmarkalaust orkuljósrými.

Vilhjálmur hefur sjaldan sýnt teikningar sínar en þó teiknað mikið. Hann lítur svo á að í dráttlist hafi hugmyndir hans gerjast og að þær fjölmörgu teikningar sem eftir hann liggja séu eins konar safnbindi hugmynda hans. Það er jafnframt vegna hinnar beinu snertingar sem teikningin felur í sér og gerir að verkum “að hratt má fanga óljósa hugsun”[1]. Eins hárnákvæm og hnitmiðuð og verk hans eru, telur hann sköpunina í eðli sínu sjálfsprottna. Hún sé samtímis hversdagsleg og yfirskilvitleg, geti tjáð af nákvæmni eina hugsun um leið og hún grandskoði hið dulda í heiminum.
Að varpa sem skýrustu ljósi á hið ósæa viðfagnsefni, krafði hann um skýrleika í vinnubrögðum. Hann aflaði sér fróðleiks um málunartækni á eigin spýtur, til viðbótar við þá þjálfun í teikningu og myndbyggingu sem hann hlaut í námi, þegar honum varð ljóst um miðjan sjöunda áratuginn, að honum tækist ekki að koma hugmyndum sínum í framkvæmd án veigamikillar tæknikunnáttu.


  [1] Vilhjálmur Bergsson. Dráttlist alla tíð, 1998. Hverju orð ná 1954-2007. Óbirt. 

Áhugi Vilhjálms á tækni myndlistar náði til allra miðla sem hann vann í meginhluta ferilsins og í lok 20. aldar tóku nýir miðlar að vekja áhuga hans. Í kringum 2001 vann hann tölvuverkið Fjölvirk samstilling með syni sínum Baldri Vilhjálmssyni og tónlistarmanninum Inga Þór Eyjólfssyni. Verkið var upphaflega forritað í hugbúnaðarkerfi[1] sem í dag er lítt aðgengilegt: það er ekki lengur í dreifingu og virkar aðeins á eldri stýrikerfum. Verkið er því sýnt hér sem vídeóskrá, en umbreytingin sem það fól í sér er í sjálfu sér hluti af sögunni sem verkið geymir. Það hefur listrænt inntak um leið og það er heimild um tæknilegt skeið sem nú er liðið. Þó að verkið skeri sig tæknilega úr í höfundarverki Vilhjálms er það tilbrigði við önnur verk í Takmarkalausu orkuljósrými og náskylt teikningum hans.


  [1] Scala Infochannel

Vilhjálmur Bergsson bjó og starfaði á evrópskum vettvangi í 35 ár. Verk hans verður að skoða í alþjóðlegu samhengi og þeir listamenn sem hann nefnir í samtölum nú, þegar hann lítur til baka, sem mikla áhrifavalda, eru brautryðjendur í abstraktlist á borð við Hilmu af Klimt og Agnesi Pelton. Hilma af Klimt fann innblástur í dulspeki; Agnes Pelton í hughrifum tengdum innra ljósi myndflatarins. Í verkum Vilhjálms má skynja vídd æskuslóða hans; blæbrigði ljóss og myrkurs á norðurhjara, hreyfingar jarðskorpunnar, hraunnybbur og fjarlæg fjöll.
Djúphygli hans og næmleiki eru enn fremur einkenni allra verka Vilhjálms.

Titill sýningarinnar Hulduefni vísar til þess efnis í alheiminum sem er hulið sjónum okkar, og er meira en þrír fjórðu alls efnis samkvæmt kenningum heimsfræði. Ottó Elíasson, eðlisfræðingur, segir um hulduefni:

Við þurfum ljós til að sjá stjarnfræðileg fyrirbæri. Sum {þeirra] gefa ekki frá sér ljós. (…)
Hulduefni er efni sem hvorki víxlverkar við né gefur frá sér ljós en mælist vegna
þyngdaráhrifa þess á allt efni. (…) Enginn veit í dag hvaðan þessi massi er upprunninn en
hann virðist með öllu ósýnilegur. Hulduefni er eitt mikilvægasta viðfangsefni nútíma
stjarnvísinda.
[5]


  [5] Otto Elíasson (2010). Hulduefni. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/hulduefni (sótt: 2.7.2025)

Æviágrip
Vilhjálmur Bergsson er fæddur í Grindavík 1937. Hann sótti myndlistarnám í Reykjavík á sjötta áratugnum og hélt að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík (1958) til Kaupmannahafnar þar sem hann hélt áfram myndlistarnámi (1958-1960). Þaðan lá leiðin til Parísar þar sem hann stundaði nám við Académie de la Grande Chaumière (1960-1962). 
Vilhjálmur varð félagi í SÚM 1969 og formaður þess frá 1971-1972. Hann dvaldi í Kaupmannahöfn 1963-1966 og 1972-1977, Madrid 1967-1968 og í París 1977-1978. Frá 1983-2000 bjó Vilhjálmur og starfaði í Düsseldorf í Þýskalandi. Frá 2000-2024 var Vilhjálmur búsettur og starfaði í Grindavík og hefur nú aðsetur í Vík í Mýrdal.

Vilhjálmur hefur haldið tugi einkasýninga á verkum sínum, m.a. í Gallerí SÚM, Norræna húsinu, Listasafni ASÍ, Listasafni Reykjavíkur, í Orangerie Benrath höll í Düsseldorf  og í Galerie AP, Kaupmannahöfn. Þá hefur hann tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi, í Bandaríkjunum og Evrópu. Verk hans eru m.a. í eigu Listasafns Reykjanesbæjar, Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Háskóla Íslands, Listasafns Gautaborgar, Hässelby kastala í Stokkhólmi, Gentofte Kunstvenner, Charlottenlund og Kunstversammlung í Düsseldorf.

Sýningin stendur til og með 4.janúar 2026.

Hanna Styrmisdóttir er sýningarstjóri Hulduefnis og tímabundið starfandi sérfræðingur í Listasafni Reykjanesbæjar.

Áður hefur Hanna m.a. verið prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands, stýrt Listahátíð í Reykjavíkog verið sýningarstjóri Íslenska skálans
á Feneyjatvíæringnum í myndlist.

Hulduefni, einkasýning Vilhjálms Bergssonar er styrkt af Myndlistarsjóði. 

Yfirlitsmynd af sýningu í Listasafni Reykjanesbæjar
3. september 2025
Myndverk sýningarinnar eru úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar, ásamt verkum í eigu fjölskyldu listamannsins. Áki hefði orðið 100 ára á þessu ári og mun sýningin heiðra minningu listamannsins með völdu yfirliti á verkum hans.
Gemfar
Eftir María P 6. júlí 2025
6. júlí 2025
Svart-hvít ljósmynd af nunnu með gasgrímu.
Eftir María P 22. maí 2025
22. maí 2025 - 17. ágúst 2025
Fleiri færslur