Heimsmynd – Áki Guðni Gränz

3. september 2025

4. september 2025 – 4. janúar 2026

Í sýningunni Heimsmynd er horft til Áka Guðna Gränz (1925–2014), alþýðulistamanns sem skapaði sér einstaka stöðu í menningarlífi Njarðvíkur og víðar. Verk hans voru aldrei einungis eftirmyndir af landslagi eða fólki – þau voru persónuleg kortlagning á hugmyndaheimi hans, þar sem draumar, þjóðsögur og minningar blönduðust saman. Í þessum verkum speglast heimssýn manns sem hafði djúpa rót í samfélagi sínu, en líka ríkan innri heim sem hann miðlaði á sinn einstaka hátt.

Áki var málarameistari að mennt en ástríðufullur listamaður í hjarta sínu. Hann leitaði sífellt leiða til að fanga það sem hann upplifði í náttúru, sögum og samfélagi. Í Heimsmynd birtast þessi leitandi spor: málverk sem eru ekki aðeins landslag eða portrett, heldur túlkanir á innra landslagi hans sjálfs. Þar má finna tröll og goðsagnaverur, hetjur og skáld, minningar úr byggðarlagi og draumkenndar sýnir sem teygja sig út fyrir hið hversdagslega. Í verkum Áka mætast tvö svið: hið sýnilega landslag og ósýnilegur heimur sagna og drauma. Hann málaði tröll og álfa sem áttu sér rætur í þjóðsögnum staðarins, en líka sögulegar persónur sem hann fann til tengsla við. Með þessu sameinaði hann ólíkar víddir í eina heild – það sem var, það sem gæti verið, og það sem aðeins birtist í hugskoti listamannsins.

Áki var jafnframt samfélagsmaður sem hafði sterkar skoðanir á framtíð og þróun þess samfélags sem hann var partur af. Í nokkrum verkum á sýningunni speglast þessi pólitíska heimsmynd. Þar má sjá til dæmis mynd af hreppsnefnd Njarðvíkur árið 1942, og mynd sem við á safninu köllum okkar á milli óskalistinn, þar birtist Ólafur Thors forsætisráðherra. Í myndinni sameinar Áki veruleika og framtíðarsýn: ástríðufulla drauminn um hraðbraut á milli Njarðvíkur, Keflavíkur og Reykjavíkur, ásamt iðnaði sem hann taldi nauðsynlegan til að bæjarfélagið gæti eflst. Þetta er ekki aðeins listaverk heldur pólitísk yfirlýsing: sýn listamannsins á óskastöðu bæjarfélagsins. Áki setti fram framtíðarsýn þar sem samfélagið stæði jafnfætis ( mögulega framar) öðrum, með trausta innviði og atvinnulíf sem tryggði velferð íbúa. Þannig má segja að verk hans séu bæði myndræn skjölun fortíðar og hugmyndaleg áætlun um framtíðina.

Þrátt fyrir að verk Áka séu afar persónuleg, bera þau líka vitni um sterk tengsl við samfélag og byggð. Hann málaði bæði fólk og sögur úr Njarðvík, þannig að heimsmynd hans varð einnig sameiginleg spegilmynd samfélagsins sem hann var hluti af. Þar birtast kennileiti, sögur og minningar sem verða að sameiginlegri arfleifð, jafnvel þótt þau séu sett fram í draumkenndum búningi. Áki vildi varðveita minningar í mynd – að gera hið efnislausa sýnilegt. Í því liggur mikilvægur þáttur í arfleifð hans: listin sem lifandi brú á milli fortíðar, nútíðar og hugmynda um framtíðina.

Heimsmynd er sýning sem varpar ljósi á innri heim Áka Guðna Gränz og gefur okkur tækifæri til að ganga inn í hans drauma, hugleiðingar og ímyndir. Hún minnir okkur á að list er ekki aðeins eftirlíking heldur skapandi afl – leið til að gera ósýnilegt sýnilegt. Í verkum sínum skilur Áki eftir sig heim sem er bæði persónulegur og samfélagslegur: persónulegur í sínum draumum og minningum, en samfélagslegur í þeirri framtíðarsýn sem hann málaði fyrir bæjarfélagið sitt. Þar með fær sýningin Heimsmynd tvíþætt hlutverk: að opna dyr inn í hugskot listamannsins og að varpa ljósi á hugmyndir hans um sameiginlega framtíð.

Myndverk sýningarinnar eru úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar, ásamt verkum í eigu fjölskyldu listamannsins. Áki hefði orðið 100 ára á þessu ári og mun sýningin heiðra minningu listamannsins með völdu yfirliti á verkum hans.

Helga Þórsdóttir er sýningarstjóri Heimsmyndar og er einnig safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar.

Heimsmynd, einkasýning Áka Guðna Gränz er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.

Sýningin stendur til og með 4.janúar 2026.

Tvö verk eftir Vilhjálm Bergsson
3. september 2025
Nýverið barst Listasafni Reykjanesbæjar dýrmæt gjöf frá Vilhjálmi Bergssyni, myndlistarmanni. Í henni er að finna verk frá lokum sjötta áratugar síðustu aldar, fram á þriðja áratug þessarar aldar; nær sjötíu ár af samfelldri myndlistarsköpun Vilhjálms Bergssonar.
Gemfar
Eftir María P 6. júlí 2025
6. júlí 2025
Svart-hvít ljósmynd af nunnu með gasgrímu.
Eftir María P 22. maí 2025
22. maí 2025 - 17. ágúst 2025
Fleiri færslur