Jafnvægið milli hins náttúrulega og hins tilbúna

3. september 2015

Arna Atladóttir fatahönnuður

3. september 2015 - 18. október 2015


Jafnvægið milli hins náttúrulega og hins tilbúna.


Sýning á 7 kjólum Örnu Atladóttur fatahönnuðar opnar á vegum Listasafns Reykjanesbæjar í Gryfjunni í Duus Safnahúsum fimmtudaginn 3. september n.k. og verður ein af Ljósanætursýningum safnsins.  Arna fæddist í Reykjavík árið 1984 en ólst upp frá 6 ára aldri í Reykjanesbæ.  Hún stundaði nám í textíl við Textilskolen í Holte, Danmörku og fór síðar í nám í fatahönnun í Instituto Europa di Design í Madríd.

Á þessari fyrstu einkasýningu Örnu sem nefnist „The balance between natural and artificial“ notast hún við mannshár og hrosshár í textíl ásamt  perlum og kristöllum. Innblástur sýningarinnar eru þær kröfur sem samfélagið setur á útlit kvenna. Sérstaklega er Örnu hugleikin mótsagnakennd viðhorf til hárvaxtar kvenna þar sem þær  leitast oftar en ekki við að hafa þykkt og mikið hár á höfði en að sama skapi þykir snyrtilegt að fjarlægja öll önnur líkamshár. Margar spurningar vakna hjá hönnuði í sambandi við viðfangsefnið og hér fæst Arna við að blanda saman hefðbundnu skrauti og prjáli við hár og setur þannig líkamshár í nýtt samhengi sem eins konar prýði kvenna. Óteljandi háralykkjur, perlur og annað efni er notað í textílinn, en hönnuðurinn situr löngum stundum við að bródera og vinna hárin sem að lokum eru fest við efnið. Samhliða þessu skissar Arna og gerir litlar textilprufur en einnig þykir hönnuði spennandi að beita saumnálinni á efnisstrangann líkt og um málarastriga og pensil væri að ræða.

Arna hefur tekið þátt í samsýningum erlendis en hluti af þessari sýningu fór á samsýningu fatahönnuða í Philip Stark safninu í Bilbao, Spáni.

Sýningin stendur til 18. október og er opin alla daga frá kl. 12.00-17.00, ókeypis aðgangur.

Nánari upplýsingar veitir Arna Atladóttir í síma 865-6272, arnaatla@gmail.com

Yfirlitsmynd af sýningu í Listasafni Reykjanesbæjar
3. september 2025
Myndverk sýningarinnar eru úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar, ásamt verkum í eigu fjölskyldu listamannsins. Áki hefði orðið 100 ára á þessu ári og mun sýningin heiðra minningu listamannsins með völdu yfirliti á verkum hans.
Tvö verk eftir Vilhjálm Bergsson
3. september 2025
Nýverið barst Listasafni Reykjanesbæjar dýrmæt gjöf frá Vilhjálmi Bergssyni, myndlistarmanni. Í henni er að finna verk frá lokum sjötta áratugar síðustu aldar, fram á þriðja áratug þessarar aldar; nær sjötíu ár af samfelldri myndlistarsköpun Vilhjálms Bergssonar.
Gemfar
Eftir María P 6. júlí 2025
6. júlí 2025
Fleiri færslur